Íslenski boltinn

Óli Jó: Verðum að halda okkur á jörðinni

Mynd/Hörður

"Það eru allir leikir erfiðir í þessari deild og þessi var engin undantekning. Færin hinsvegar duttu okkar megin og það skilur að," sagði Ólafur Jóhannesson þjálfari FH í samtali við Hörð Magnússon á Sýn í kvöld. Hann var spurður hvort hans menn hefðu verið dálítið værukærir í byrjun. Hann var ekki sammála nafna sínum Þórðarsyni um það hvort liðið hefði verið betra í leiknum.

"Ég hafði það á tilfinningunni að menn væru full mikið að njóta veðurblíðunnar í stað þess að spila fótbolta af því þetta var fyrsti leikurinn í sumar sem við spilum í almennilegu veðri. Við fórum hinsvegar yfir það í hálfleik og mér fannst við vera heldur kraftmeiri í síðari hálfleiknum. Okkur líður yfirleitt mjög vel þegar við erum komnir yfir," sagði Ólafur og vildi lítið gefa fyrir fullyrðingar nafna síns Þórðarsonar um að Fram hefði verið betri aðilinn í leiknum.

"Það er nú oft þannig þegar menn tapa leikjum að þá voru þeir óheppnir eða voru að reyna að spila fótbolta - en mér fannst við miklu betri. Árangurinn í fyrstu fjórum leikjunum er framar björtustu vonum og við þurfum að halda okkur á jörðinni og reyna að vinna hvern leik fyrir sig," sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×