Erlent

Chavez á enn í stríði við sjónvarpsstöðvar

MYND/AFP

 

Ríkisstjórn Venesúela hefur ásakað þarlenda sjónvarpsstöð um að hvetja til þess að forseti landsins Hugo Chavez verði myrtur. Ásökunin kemur strax í kjölfar þess að stjórnin lét loka annari sjónvarpsstöð í landinu en sú ákvörðun olli uppþotum í höfuðborginni Caracas og víðar.

Ríkisstjórnin segir að á stöðinni, Globovision, hafi verið kallað eftir því að Chavez yrði myrtur en forsvarsmenn stöðvarinnar neita ásökununum. Ráðherra fjarskiptamála í landinu segir að stöðin hafi hvatt til tilræðisins með því að sýna myndir frá því þegar Jóhannesi Páli páfa var sýnt banatilræði árið 1981. Undir mynskeiðinu var leikið lagið „This does not stop here," í flutningi Rubens nokkurs Blades, en sá mun vera núverandi ferðamálaráðherra í Panama.

„Sérfræðingar okkar hafa komist að þeirri niðurstöðu að myndskeiðinu sé ætlað að hvetja til morðsins á forseta Venezuela," er haft eftir ráðherranum á BBC. Hann hefur kært stöðina fyrir tiltækið til ríkissaksóknara landsins. Sjónvarpsstjóri Globovision segir ásökunina vera fáránlega. Globovision var eina sjónvarpsstöðin í landinu sem birti myndir af mótmælunum í Caracas á dögunum.

Þá hefur ríkisstjórnin einnig kært bandarísku fréttastöðina CNN fyrir að tengja Chavez við hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Í tilkynningu frá CNN eru ásökununum vísað á bug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×