Erlent

Fimmtán ára drengur gripinn með hníf í sænska þinghúsinu

Frá Stokkhólmi.
Frá Stokkhólmi.

Fimmtán ára piltur var í dag gripinn með hníf í sænska þinghúsinu í Stokkhólmi. Hann var þar á ferð með bekknum sínum og hugðist fá sér sæti á áhorfendapöllum í þinghúsinu þegar málmleitartæki, sem fólk þarf að fara í gegnum, pípti á hann. Öryggisverðir brugðust skjótt við og tóku hnífinn af piltinum og verður hann ákærður fyrir brot á vopnalögum.

Haft er eftir forseta þingsins á vef sænska ríkisútvarpsins að atvikið veki upp spurningar um hvort ekki eigi að koma fyrir málmleitartækjum í anddyri þinghússins þar sem almenningur gengur inn í stað þess að hafa einungis slíkt tæki við áhorfendapalla.

Í ljósi fyrri atburða í Svíþjóð og andstöðu við suma þingmenn fari menn aldrei of varlega, segir þingforsetinn, og vísar meðal annars til morðsins á Önnu Lindh, fyrrverandi utanríkisráðherra landsins, og Olof Palme, fyrrverandi forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×