Erlent

Hjón ákærð fyrir þrælahald í New York

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar
Mahender Murlidhar Sabhnani er leiddur út úr lögreglustöð í Mineola í New York.
Mahender Murlidhar Sabhnani er leiddur út úr lögreglustöð í Mineola í New York. MYND/Associated Press
Vellauðugt par var á þriðjudag ákært fyrir að hafa um árabil haldið tveimur indónesískum konum í þrælkun á heimili sínu í New York.

Varsha Mahender Sabhnani, 35, og eiginmaður hennar Mahender Murlidhar Sabhnani, 51, stjórna alþjóðlegu ilmvatnsfyrirtæki frá heimili sínu.

Parið var handtekið í síðustu viku þegar önnur konan fannst á gangi á Long Island, íklædd buxum og handklæði eingöngu. Talið er að hún hafi flúið af heimili fólksins í Muttontown á Long Island kvöldið áður þegar hún fór út með ruslið.

Hjónin voru ákærð á þriðjudag fyrir þrælkun.

Lögfræðingur konunnar lýsti parinu sem ,,fyrirmyndar borgurum" og sagði að konunum hafi verið frjálst að fara hvenær sem þær vildu.

Demitri Jones, aðstoðarsaksóknari í Bandaríkjunum sagði að málið væri sannarlega dæmi um nútíma þrælahald.

Saksóknarar segja að konurnar hafði verið barðar og sjóðandi vatni hellt á þær ef þeim urðu á mistök. Í einu tilfelli var önnur konan neydd til að borða 25 chili aldin í refsingarskyni.

Önnur kvennanna sagði yfirvöldum að þær hafi verið látnar sofa á mottum í eldhúsinu og að þær hafi fengið svo lítið að borða að þær hafi þurft að stela mat.

Konurnar komu löglega til Bandaríkjanna árið 2002, en eftir það tóku hjónin vegabréfin þeirra og bönnuðu þeim að yfirgefa heimilið. Þeim hafði verið lofað annarsvegar sex þúsund og hinsvegar tólf þúsund krónum í mánaðarlaun en fengu þau ekki, en saksóknarar sögðu að rúmar sex þúsund krónur hefðu verið sendar mánaðarlega til dóttur annarar konunnar í Indónesíu.

Konurnar eru í nú umsjón kaþólskra hjálparsamtaka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×