Erlent

Búast við að Brown kalli herlið Breta heim frá Írak

Búist er við að Gordon Brown, nýr leiðtogi breska Verkamannaflokksins, kalli herlið Breta heim frá Írak þegar hann tekur við forsætisráðherraembættinu í næsta mánuði. Bandaríkjaforseti hefur verið varaður við því að svo geti farið að hann missi sinn helsta bandamann.

Ráðgjafar George Bush bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu telja að Brown kalli herlið Breta heim frá Írak á fyrstu eitt hundrað dögunum frá því hann tekur við embætti. Breska dagblaðið Sunday Telegraph greindi frá því að ráðgjafarnir hafi varað forsetan við þessu og sagt honum að undirbúa hvernig bregðast eigi við þegar Bretar, helstu bandamenn þeirra í Íraksstríðnu, kalla sína menn heim frá Írak.

Þeir telja að ákvörðunin verði tilraun Verkamannaflokksins til að auka vinsældir nýs forsætisráðherra. Blaðið segir bandarísk stjórnvöld óttast það að Brown verði mun veikari leiðtogi en Tony Blair, núverandi forsætisráðherra Bretlands, og að hann muni ekki reynast bandarískum stjórnvöldum eins góður bandamaður og Blair hefur reynst þeim.

Umfjöllun blaðsins er aðeins degi á eftir að Blair kom í óvænta kveðjuheimsókn til Íraks. Þar fullvissaði hann írösku þjóðina um að sú stefna sem hann hefði staðið fyrir gagnvart Írökum væri stefna allrar ríkisstjórnarinnar og hún myndi ekki breytast þó nýr maður tæki við hans starfi.

Jimmy Carter, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, gagnrýndi í viðtalið við breska ríkisútvarpið BBC í gær skilyrðislausa fylgni Blairs við ákvarðanir Bush í Íraksstríðinu. 

Bretar ætlar að fækka hermönnum sínum í Írak um tæplega tvö þúsund á árinu. Herlið Breta á því að vera samansett af fimm þúsund og fimm hundruð hermönnum í árslok. Bresk stjórnvöld hafa ekkert gefið upp um hvenær herliðið verður að fullu kallað heim. 

Brown verður formlega útnefndur leiðtogi Verkamannaflokksins á þingi hans 24. júní næstkomandi og þremur dögum síðar tekur hann svo við valdataumunum af Tony Blair forsætisráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×