Erlent

Innfæddur ameríkani í stað indíána?

Björn Gíslason skrifar
Indíánar verða nefndir innfæddir ameríkanar ef norska málnefndin og umboðsmaður jafnfréttismála fá að ráða.
Indíánar verða nefndir innfæddir ameríkanar ef norska málnefndin og umboðsmaður jafnfréttismála fá að ráða. MYND/Helgi Felixson

Svo gæti farið að orð eins og indíáni, eskimói, dvergur og mongólíti verði bannorð í Noregi ef marka má frétt á vef norska ríkisútvarpsins.

Þar er sagt frá því að norska málnefndin hafi ásamt umboðsmanni jafnréttismála fundað að undanförnu með það að markmiði að búa til lista yfir orð sem þau telja að Norðmenn eigi að fara varlega í að nota þar sem þau geti verið særandi.

Rætt er við norskan rithöfund og málvísindamann sem bendir á að indíánar séu ekki lengur kallaðir indíánar í Bandaríkjunum heldur innfæddir ameríkanar. Telur rithöfundurinn að orðið indíáni hverfi brátt úr norsku líkt og orðin negri og hottintotti sem þegar hafa verið sett á bannlista í Noregi.

Ekki eru þó allir sáttir við slíka pólitíska rétthugsun og haft er eftir nefndarmanni í norsku málnefndinni að mikilvægt sé að hafa fjölbreytni í málinu. Það leysi engin samfélagsleg vandamál að banna orð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×