Erlent

Landhelgisgæslan fylgist með ferðum Sea Shepherd

Skip Sea Sheperd-samtakanna er á leið hingað til lands í þeim tilgangi að spilla fyrir hvalveiðum Íslendinga. Paul Watson, leiðtogi samtakanna, segir liðsmenn þeirra ætla að leggja líf sitt að veði til að koma í veg fyrir dráp á hvölum.

Rúm tuttugu ár eru frá því að Sea Sheperd-menn létu síðast að sér kveða á Íslandi en þá sökktu þeir hvalbátum í Reykjavíkurhöfn og unnu spellvirki í Hvalstöðinni í Hvalfirði. Paul Watson, leiðtoga samtakanna var í kjölfarið vísað úr landi með ótímabundnu endurkomubanni. Sú staðreynd virðist valda Sea Sheperd litlum áhyggjum því samkvæmt fréttatilkynningu á heimasíðu þeirra lagði skip samtakanna, Farley Mowat, af stað frá Ástralíu í morgun áleiðis til Íslands.

Áætlun samtakanna ber hið mikilúðlega heiti Ragnarök, sem samkvæmt íslenskri orðabók þýðir heimsslit, og markmið hennar er að koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga í sumar og beina kastljósi umheimsins að því sem samtökin segja ólöglegt athæfi.

Skipið hefur undanfarna mánuði siglt um Suðurhöf og truflað hvalveiðar Japana en nú er röðin komin að Íslendingum. Ekki er vitað hvort Paul Watson verður með í för en haft er eftir honum á heimasíðu samtakanna að liðsmenn þeirra ætli að leggja líf sitt að veði til að koma í veg fyrir hvaladráp. Búist er við að skipið verði komið hingað til lands eftir um það bil mánaðar siglingu.

Landhelgisgæslan fylgist með ferðum Sea Sheperd og að sögn formælanda hennar getur hún gripið til ýmissa ráða gegn hugsanlegum lögbrjótum, hvort heldur innan 12 mílna landhelginnar eða 200 mílna efnahagslögsögunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×