Enski boltinn

Fowler kveður Anfield á sunnudaginn

Robbie Fowler í leik með Liverpool gegn Fulham um síðustu helgi.
Robbie Fowler í leik með Liverpool gegn Fulham um síðustu helgi. MYND/AP

Markahrókurinn Robbie Fowler, leikmaður Liverpool, kveður Anfield á sunnudag þegar liðið leikur sinn síðasta leik í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á þessari leiktíð gegn Charlton.

Fowler staðfesti í dag að samningur hans við félagið yrði ekki framlengdur en hann rennur út í sumar. Í samtali við blaðið Liverpool Echo segist Fowler vonast til þess að geta kvatt félagið með nokkrum mörkum og að félagið tryggi sér Meistaradeildartitilinn, en liðið mætir AC Milan í úrslitaleik í Aþenu þann 23. maí.

Robbie Fowler er einn af dáðustu leikmönnum Liverpool en hann lék fyrsta leik sinn með aðalliði félagsins árið 1993, þá átján ára gamall. Á átta árum skoraði hann alls 171 mark í 330 leikjum fyrir Liverpool.

Hann gekk svo til liðs við Leeds árið 2001 og fór þaðan til Manchester City árið 2003 en sneri aftur á heimaslóðir í byrjun árs 2006. Hann hefur skorað sjö mörk fyrir liðið á þessari leiktíð þrátt fyrir að hafa mátt verma varamannbekkinn mestan hluta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×