Gestir á sinfóníuhljómleikum í tónleikahöllinni í Boston í Bandaríkjunum í gær fengu meira fyrir peninginn þegar til handalögmála kom milli tveggja áhorfenda.
Tveir menn slógust á svölum tónleikahússins og tókst öðrum að toga skyrtuna utan af hinum í hamaganginum. Stjórnandinn stöðvaði hljómleikana á meðan mönnunum var fylgt út. Hvorugan manninn sakaði og voru þeir ekki kærðir.
Eftir hamaganginn var hljóðfæraleik haldið áfram. Í lok tónleikanna var hljómsveit klappað lof í lófa og urðu áflogahundarnir af góðri skemmtun.