Erlent

Írsk stúlka fær leyfi fyrir fóstureyðingu í Bretlandi

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar

Írsk táningsstúlka hefur unnið mál fyrir hæstarétti Dublinarborgar þar sem henni er heimilað að fara til Bretlands í fóstureyðingu. Læknar höfðu sagt 17 ára móðurinni að hluta af heila og höfuðkúpu fóstursins vantaði. Barnið myndi einungis lifa örfáa daga eftir fæðingu. Stúlkan er í umsjá heilbrigðisyfirvalda á Írlandi sem höfðu hindrað hana í að fara til Bretlands.

Fóstureyðingar eru ólöglegar á Írlandi nema móðirin sé í lífshættu vegna læknisfræðilegs ástands eða hættu á sjálfsmorði.

Um það bil sjö þúsund írskar konur sniðganga bannið árlega og fara á eigin vegum til Bretlands þar sem fóstureyðingar voru leyfðar árið 1967.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að bannið væri hvorki lögboðið né tilgreint í stjórnarskrá. Stúlkan sem er þekkt undir nafninu Miss D fékk því leyfi fyrir fóstureyðingunni.

Þrjár hliðar voru fluttar í málinu. Viðhorf stúlkunnar og móður hennar, fulltrúa frá heilbrigðisyfirvöldum sem voru fyrst á móti banninu en skiptu síðan um skoðun, og lögmanna sem töluðu fyrir rétti fóstra til lífs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×