Erlent

Barist við elda í Hollywood-hæðum

Slökkviliðsmenn berjast við eldinn í Griffith-garðinum í gær.
Slökkviliðsmenn berjast við eldinn í Griffith-garðinum í gær. MYND/AP

Slökkviliðsmenn í Los Angeles berjast nú við elda í frægum garði í Hollywood-hæðum sem kviknuðu í gærdag. Eftir því sem fram kemur á fréttavef CNN hafa um 15 prósent af Griffith-garðinum eyðilagst í eldinum en hann er um 15 kílómetra frá miðborg Los Angeles.

Slökkvilið rýmdi hús sunnan megin í garðinum í gær í varúðarskyni en ekkert hús hefur enn orðið eldinum að bráð. Alls hafa um 200 slökkviliðsmenn og átta þyrlur barist við eldinn en hiti og þurrkar ásamt miklum bratta þar sem eldarnir geisa gera slökkvistarfið erfitt.

Slökkviliðsmönnum varð þó nokkuð ágengt í nótt og vonast þeir til að slökkva eldinn í dag. Ekki liggur fyrir hver eldsupptök eru en verið er að rannsaka hvort eldurinn hafi kviknað eftir að maður henti sígarettu á golfvöll í garðinum.

Í garðinum er auk þess að finna tennisvelli, dýragarð borgarinnar og grasagarða ásamt stjörnuskoðunarstöð. Þar hafa einnig oft verið tekin upp atriði í kvikmyndum, þar á meðal fyrir myndirnar Rebel Without a Cause með James Dean og Back to the Future með Michael J. Fox.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×