Enski boltinn

West Ham af fallsvæðinu

NordicPhotos/GettyImages

West Ham lyfti sér í dag af botni ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu með 3-1 sigri á Bolton á heimavelli sínum. Wigan tapaði á sama tíma fyrir Middlesbrough á heimavelli 1-0 og missti West Ham upp fyrir sig í töflunni. Fulham krækti í gríðarlega mikilvæg stig með 1-0 sigri á Liverpool.

Carlos Tevez fór á kostum í liði West Ham í dag og kom liði sínu í 2-0 eftir rúmar 20 mínútur. Mark Noble bætti við þriðja markinu efti hálftíma leik  eftir undirbúning frá Tevez, en Gary Speed minnkaði muninn á 67. mínútu. Með sigrinum fer West Ham í 38 stig í botnbaráttunni og er komið af fallsvæðinu í fyrsta skipti síðan í desember, en Wigan situr eftir með 35 stig. Fulham er komið með 39 stig og ætti að vera nokkuð öruggt með sæti sitt. Sheffield United er sömuleiðis í ágætum málum enn, en liðið á leik gegn Aston Villa í lokaleik dagsins.

Reading varð af afar dýrmætum stigum á heimavelli þegar liðið lá 2-0 fyrir botnliði Watford, Newcastle tapaði 2-0 heima fyrir Blackburn og Everton vann sannfærandi 3-0 sigur á Portsmouth. Markaskorara í leikjunum má sjá á Boltavaktinni hér á Vísi.

Staðan á botninum er því þannig að Watford er neðst í deildinni með 27 stig og er löngu fallið. Charlton er í 19. sæti með 33 stig en á leik til góða gegn Tottenham eftir helgina. Wigan er nú í 18. sætinu, sem er fallsæti, með 35 stig. West Ham er í 17. sæti með 38 stig - líkt og Sheffiedl United sem á leik til góða, en er með betri markatölu en West Ham. Fulham er svo í 15. sæti með 39 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×