Enski boltinn

Ashley Cole fær óblíðar móttökur

NordicPhotos/GettyImages

Bakvörðurinn Ashley Cole hjá Chelsea fær væntanlega óblíðar móttökur á Emirates vellinum á sunnudaginn þegar hann spilar sinn fyrsta leik með Chelsea á gamla heimavellinum. Stuðningsmenn Arsenal eru tilbúnir með ávexti og grænmeti sem gæti átt eftir að rigna yfir leikmanninn.

Stuðningsmenn Arsenal voru skiljanlega ekki sáttir við það þegar Cole ákvað að ganga til liðs við erkifjendur liðsins á sínum tíma. Þegar liðin mættust á Stamford Bridge mættu stuðningsmenn Arsenal með gúmmítékka og leikfangasíma sem þeir beindu að leikmanninum og hrópuðu auk þess miður falleg orð að honum.

Þetta eru ekki einu herbrögð stuðningsmanna Arsenal til að ná sér niðri á "svikaranum", heldur hafa þeir nú sent á milli sín vefslóðina þar sem hægt er að kjósa leikmann ársins hjá Chelsea - og ætla stuðningsmenn Arsenal allir sem einn að kjósa Wayne Bridge, sem er annar vinstri bakvörður liðsins.

Endurkoma Cole er sagt mesti prófsteinninn á öryggismál á Emirates vellinum hingað til, en forráðamenn Arsenal ætla að þó ekki að gera sérstakar ráðstafanir í öryggismálum fyrir leikinn á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×