Erlent

Flaska á viku

Sigríður Elva Vilhjálmsdóttir skrifar

Breskar stúlkur á aldrinum ellefu til þrettán ára sem á annað borð innbyrða áfengi drekka að meðaltali flösku af léttvíni á viku, eða átta áfengiseiningar. Þetta er kemur fram í skýrslu sem samtökin Alcohol Concern létu gera þar í landi.

Breskir drengir á þessum aldri drekka enn meira, eða sem samsvarar einni og hálfri léttvínsflösku á viku. Þetta er aukning um um það bil þriðjung frá árinu 2000.

Srabani Sen, formaður Alcohol Concern segir ekki nóg gert til að vernda börn fyrir áfengi. "Drykkja barna getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilastarfsemi, stóraukið líkur á áfengissýki síðar á ævinni og minnkað lífslíkur." segir Sen.

Samtökin mæla með því að foreldrar sem gefa börnum sínum yngri en fimmtán ára áfengi verði sóttir til saka. Þau stinga einnig upp á hækkun áfengisskatta og meira verði gert í því að koma í veg fyrir sölu á áfengi til barna. Í dag kveða bresk lög á um að ólöglegt sé að gefa börnun yngri en fimm ára áfengi nema í neyðartilfellum, og þá undir eftirliti lækna.

Heilbrigðisráðherra breta, Caroline Flint sagði við fréttastofu BBC að hún teldi erfitt að fylgja tillögunum eftir. "Ég tel að lögum sem bönnuðu drykkju barna undir 15 ára aldri væri erfitt að fylgja eftir og að óvíst sé hvort þau hefðu tilætluð áhrif."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×