Erlent

Kasparov yfirheyrður hjá FSB vegna meints ofstækis

Garrí Kasparov, fyrrverandi heimsmeistari í skák og einn af leiðtogum stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, gekk í dag á fund rússnesku leyniþjónustunnar vegna ásakana um að hann hefði haft uppi orð sem túlka mætti sem ofstæki.

Þar er verið að vísa til orða hans í útvarpi og orða í dagblaði stjórnarandstæðinga sem féllu áður en efnt var til mótmæla í Moskvu og Pétursborg um síðustu helgi. Kasparov var í hópi 170 manna sem handteknir voru í mótmælum í Moskvu á laugardag og var hann sektaður fyrir að raska almannafriði.

Hann var í kjölfarið kallaður til yfirheyrslu hjá öryggisstofnuninni FSB, sem tók við af KGB að loknu kalda stríðinu. Stofnunin rannsakar hvort Kasparov hafi með orðum sínum hvatt til ofstækisaðgerða.

Kasparov er svarinn andstæðingur Pútíns Rússlandsforseta og hefur ásamt ýmsum stjórnarandstæðingum sakað forsetann um að kæfa lýðræðisþróun í landinu.

Eftir því sem segir í frétt Reuters var Kasparov kátur þegar hann ræddi við fréttamenn fyrir utan skrifstofur FSB en þar sagði hann yfirvöld reyna að gera þátttöku í stjórnmálum að refsiverðri háttsemi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×