Erlent

Lögregla harmar myndbirtingu NBC

Ein af myndunum sem Cho sendi NBC.
Ein af myndunum sem Cho sendi NBC. MYND/AP

Lögregla í Virginíu, sem rannsakar skotárásina í Virginia Tech háskólanum á mánudag, harmaði í dag þá ákvörðun NBC-sjónvarpsstöðvarinnar að sýna myndband sem morðinginn, Cho Seung-hui, sendi stöðinni. Þar líkir hann meðal annars dauða sínum við píslardauða Jesú Krists.

NBC sýndi myndbandið í dag þar sem Cho fer hörðum orðum um ríka krakka og segir að menn hafi haft 100 milljarða tækifæra til að forðast atburðina á mánudag. Lögreglan gagnrýndi hins vegar myndbirtinguna og sagði myndirnar óhuggulegar. Hún hefði áhyggjur af því að fólk sem ekki hefði séð svona myndir áður hefði séð þær nú, en lögreglan væri vön myndum sem þessum

Fréttastjóri NBC varði hins vegar ákvörðunina að birta myndirnar. Benti hann á að fólk skildi ekki hvernig þetta hefði getað gerst en að menn kæmust ekki mikið nærri huga morðingja en þetta. Hann sagðist þó skilja að fólk gæti verið ósammála ákvörðuninni.

Cho myrti alls 33 í tveimur árásum, annars vegar á heimavist skólans og hins vegar í skólastofum. Þá særðust 17 í árasinni, átta þeirra eru enn á spítala í nágrenni skólans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×