Erlent

Stjórnarformaður H&M í felum vegna hótana

Einn ríkasti maður Svíþjóðar og stjórnarformaður fataframleiðandans Hennes & Mauritz, Stefan Persson, býr nú við lögregluvernd á leynilegum stað í Stokkhólmi eftir að hann fékk líflátshótanir.

Eftir því sem fram kemur á danska viðskiptafréttavefnum epn.dk hefur Persson yfirgefið glæsihýsi sitt í Djursholm og dvelur nú á leynilegum stað í Stokkhólmi. Kona hans nýtur einnig lögregluverndar.

Persson, sem er sonur stofnanda Hennes & Mauritz, tilkynnti um hótanirnar í nóvember í fyrra og sótti þá um nokkurs konar vitnavernd. Hvorki hann né H&M hafa tjáð sig um það um hvað hótarnirnar snúast en talsmaður lögreglunnar í Stokkhólmi segir þær trúverðugar.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Persson er hótað. Fyrir tíu árum krafði maður hann um 10 milljónir sænskra króna, um hundrað milljónir íslenskar, annars myndi hann drepa fjölskyldu hans og sprengja fjölmargar H&M-búðir í loft upp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×