Erlent

Morðinginn í Blacksburg var frá Suður-Kóreu

Björn Gíslason skrifar
MYNDAP

Maðurinn sem skaut 32 manns til bana í Virginia Tech háskólanum í Blacksburg í Virginíu í gær hét Cho Seung-hui og var suðurkóreskur. Hann var 23 ára og var á lokaári í enskunámi við skólann. Lögregluyfirvöld greindu frá þessu á blaðamannafundi í skólanum í dag.

Cho var á námsmannavegabréfi í Bandaríkjunum og bjó á stúdentagörðum við skólann. Þá sagði lögregla að hún hefði fundið tvær skammbyssur á vettvangi en að rannsókn benti ekki til þess að einhver annar hefði tekið þátt í árásunum tveimur. Þær voru gerðar annars vegar á stúdentagarði og hins vegar í skólastofu. Cho fannst í stofunni þar sem hann gerði árás og hafði hann þá svipt sig lífi.

Þá greindu spítalayfirvöld frá því að 28 manns væru á spítala eftir árásina en að ástand allra þeirra væri stöðugt.

Kort af vettvangi voðverkanna á lóð Virginia Tech háskólans

Yfirvöld í Blacksburg í Virginíu liggja nú undir miklu ámæli fyrir að hafa ekki brugðist nægilega hratt við þegar árásin var gerð en stór hluti nemendanna fékk engar viðvaranir fyrr en tölvupóstur var sendur út tveimur klukkutímum eftir fyrri árásina.

Rektor skólans afsakaði sig hins vegar á blaðamannafundi í gær með því að segja að skólayfirvöld hefðu enga hugmynd haft um hversu alvarlegt málið væri.

Skotárásin er sú mannskæðasta í sögu Bandaríkjanna. Minningarathöfn um hina látnu fer fram í skólanum síðar í dag og þar verða George Bush Bandaríkjaforseti og Laura, kona hans.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×