Enski boltinn

Líkir Rooney og Ronaldo við Michael Jordan

Jordan-legir. 
DeMerit líkir þeim Rooney og Ronaldo við körfuboltasnillinginn Michael Jordan
Jordan-legir. DeMerit líkir þeim Rooney og Ronaldo við körfuboltasnillinginn Michael Jordan NordicPhotos/GettyImages

Jay DeMerit, leikmaður enska liðsins Watford sem ólst upp í Bandaríkjunum, segir að tilþrif þeirra Wayne Rooney og Cristiano Ronaldo hjá Manchester United minni sig á það þegar hann fylgdist með Michael Jordan fara á kostum í NBA deildinni á árum áður. DeMerit segir tvíeykið hjá United gjörsamlega óstöðvandi, en er ekki frá því að Watford sé betra lið en Roma á Ítalíu.

Manchester United valtaði yfir Watford 4-1 í undanúrslitaleik enska bikarsins um helgina og þar áttu þeir Rooney og Ronaldo mjög góðan leik - ekki í fyrsta sinn í vetur. DeMerit segir að það kæmi sér ekki á óvart ef United endurtæki leikinn frá því árið 1999 og ynni þrennuna.

"Ekkert lið í heiminum er á öðrum eins sóknarspretti og Manchester United og það hefur mikið með þá tvo að gera. Það er ekki hægt að stöðva Rooney og Ronaldo - menn geta í besta falli reynt að halda aðeins aftur af þeim. Þetta er það sama og menn sögðu um Michael Jordan á sínum tíma og þeir tveir eru af svipuðu kalíberi.

Þeir munu alltaf skapa sóknarfæri á móti þér og gera manni lífið afskaplega leitt á vellinum. United-liðið er alltaf að hugsa um að skora fleiri mörk, alveg sama hver staðan er í leiknum. Ég held að liðið verði mjög illviðráðanlegt á lokasprettinum í vor," sagði DeMerit og sagðist hafa að minnsta kosti einn hlut til að hugga sig við eftir tapið í bikarnum um helgina.

"Við getum borið höfuðið hátt eftir leikinn um helgina, því við töpuðum einfaldlega fyrir betra liði. Þeir unnu Roma nú 7-1, svo að 4-1 tap fyrir þeim er kannski ekki svo slæmt. Kannski erum við bara betri en Roma," sagði DeMerit í samtali við Mirror.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×