Erlent

Mikill viðbúnaður vegna fylkisstjórakosninga í Nígeríu

Frá kjörstað í Lagos í dag.
Frá kjörstað í Lagos í dag. MYND/AP

Mikill viðbúnaður er í borgum og bæjum í Nígeríu í dag vegna fylkisstjórakosninga sem þar fara fram. Litið er á kosningarnar sem prófstein fyrir forsetakosningar í landinu sem fram fara um næstu helgi í þessu fjölmennasta ríki Afríku.

Óttast er að til átaka komi milli stuðningsmanna frambjóðenda og í borginni Lagos eru hermenn gráir fyrir járnum og gæta þess að ekki komi til átaka.

Forseti landsins, Olusegun Obasanjo, segir að hvorki ofbeldi né svik verði liðin í kosningunum en nú þegar hafa borist fregnir af árásum á starfsmenn kjörstjórna í einhverjum hlutum landsins. Kosningarnar í dag þykja mjög mikilvægar þar sem völd fylkisstjóra eru allnokkur, ekki síst í þeim hlutum landsins sem eru ríkir af olíulindum og hafa því úr nokkrum fjármunum að spila.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×