Enski boltinn

Curbishley: Erfiðara en ég hélt að taka við West Ham

NordicPhotos/GettyImages

Knattspyrnustjórinn Alan Curbishley hjá West Ham segist ekki hafa búist við því að hans biði jafn erfitt verkefni en raun bar vitni þegar hann tók við liðinu af Alan Pardew á sínum tíma. Liðið vann ekki sigur í fyrstu 11 leikjum sínum undir hans stjórn, en hefur aðeins verið að vakna til lífsins í síðustu leikjum.

"Þetta er erfiðara verkefni en ég gerði mér grein fyrir í byrjun, ég sé það í dag. Ég óttast samt ekki áskorunina og ég var staðráðinn í að missa ekki af öðru tækifæri mínu til að taka við West Ham. Við vorum afskrifaðir fyrir þremur eða fjórum vikum - og réttilega - því við vorum þá 10 stigum frá öruggu sæti í deildinni. Nú erum við hinsvegar búnir að koma okkur í ágæta stöðu til að sleppa, en það yrði mikið afrek ef svo færi," sagði Curbishley og viðurkenndi að verkefnin framundan yrðu mjög erfið.

"Við eigum risaviku fyrir höndum þar sem við spilum við Sheffield United, Chelsea og Everton. Allir þessir leikir eru gríðarlega þýðingarmiklir. Það þýðir ekkert fyrir okkur að fara til Sheffield og hugsa með okkur að það verði ekkert mál af því við erum nýbúnir að vinna Arsenal. Þetta verður mikill slagur þar sem bæði lið munu tjalda öllu til að sigra."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×