Gestur Jónsson verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar segir refsiheimild ekki fyrir hendi í lögum sem ákæruliður um meintar ólöglegar lánveitingar byggir á. Máli olíuforstjóranna hafi verið vísað frá á þeim grundvelli að greinar samkeppnislaga væru ekki nógu skýrar um ábyrgð stjórnenda. Þá vill Gestur vill sýknu, ekki frávísun, vegna orða stjórnanda rannsóknarinnar um að málið hafi ekki verið rannsakað með tilliti til nauðsynlegra viðskipta.
Í ákærulið um meintar ólöglegar lánveitingar frá Baugi til Gaums, Fjárfars og Kristínar, systur Jóns er vitnað í 104. grein hlutafélagalaga. Lögin kveði á um að hlutafélögum sé bannað að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum lán. Ekki er talað að einstaklingum sé bannað að veita lán. Lögin séu óskýr að þessu leiti.
Orð Jóns H.B. Snorrasonar stjórnanda rannsóknarinnar fyrir dómi hefðu lýst því að málið hafi ekki verið rannsakað með tilliti til nauðsynlegra viðskipta, heldur ólöglegra lánveitinga sem tengdust viðskiptunum.
Alvarlegt sé að kanna ekkert annað en ólögmætar lánveitingar. Yfirlýsingin ein og sér kalli á frávísun frá málinu.
Þá sagði Gestur að upphaflegt rannsóknartilefni í þessu stærsta efnahagsbrotamáli íslandssögunnar hefði verið grunur um stórfelld auðgunarbrot. Þetar það hefði komið í ljós hefðu rannsakendur reynt að lúsleita að einhverju misjöfnu í bókhaldi Baugs.
Gestur vísaði einnig til skýringa á hugtakinu lán. Hann sagði dóm Hæstaréttar í fyrra Baugsmálinu kveða skýrt á um að lán þyrfti að skýra þröngt. Háskalegt væri ef mönnum dytti önnur skilgreining í hug á eiginlegu láni, en að verðmæti væru látin af hendi gegn því eina skilyrði að um endurgreiðslu yrði að ræða.
Þá sagði hann ekki minnstu tilraun hafa verið gerða til að setja peningafærslur í þessum ákærulið í samhengi. Flestar hefðu tengst viðskiptum en ekki lánum.
Lögreglan hefði í síbylju talað um lánveitingar í yfirheyrslum yfir sakborningum og vitnum. Þrátt fyrir að hafa í höndum gögn sem sýndu viðskipti milli tveggja félaga.