Innlent

Stöðvaður í miðri spurningu

Sigurður Tómas Magnússon virtist afar ósáttur þegar dómari stöðvaði spurningar hans.
Sigurður Tómas Magnússon virtist afar ósáttur þegar dómari stöðvaði spurningar hans. MYND/GVA

Arngrímur Ísberg, dómsformaður í Baugsmálinu, ákvað í gær að takmarka þann tíma sem sækjandi í málinu fengi til að spyrja Jón Ásgeir Jóhannesson, einn sakborninga, út í málavexti. Sækjandi mótmælti þessum takmörkunum.

Reiknað var með að skýrslutökum yfir Jóni Ásgeiri fyrir dómi lyki um hádegi á miðvikudag. Á þriðja tímanum í gær sagðist Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, eiga um þrjár klukkustundir eftir.

Dómsformaðurinn ákvað í framhaldinu að sækjandi myndi fá 75 mínútur til viðbótar, en því næst kæmust verjendur að. Kalla yrði Jón Ásgeir fyrir aftur síðar ef spyrja þyrfti frekar.

Sigurður Tómas mótmælti þessu og sagði það geta stefnt sönnunarfærslu sinni í voða ef skýrslutökur yfir Jóni Ásgeiri yrðu slitnar í sundur með þessum hætti. Í samtali við Fréttablaðið sagðist hann ekki vita til þess að tími sækjanda hefði áður verið takmarkaður með þessum hætti í héraðsdómi. Þetta sé afar óvenjulegt, en af því verði ekki stór skaði.

Gestur Jónsson, verjandi Jóns Ásgeirs, segir nauðsynlegt að halda sig við áætlunina í svo flóknu máli. Dómarans sé að stjórna og saksóknara að koma með tímaáætlun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×