Innlent

Eldri kona stór­slösuð og vitni gefa sig fram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Fólksbíllinn var mikið skemmdur eftir áreksturinn og þá voru ummerki eftir blóð á götunni.
Fólksbíllinn var mikið skemmdur eftir áreksturinn og þá voru ummerki eftir blóð á götunni. vísir/Vilhelm

Vitni hafa sett sig í samband við lögreglu vegna alvarlegs slyss á Suðurlandsbraut um tíuleytið í morgun þegar ekið var á gangandi vegfaranda. Um var að ræða fullorðna konu sem er alvarlega slösuð.

Fólksbíl var ekið á Suðurlandsbraut í vestur þegar slysið varð. Konan var á göngu yfir gönguljósin til móts við Hilton Nordica- hótelið.

Ásmundur Rúnar Gylfason aðstoðaryfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu segir að konan hafi verið flutt á sjúkrahús þar sem hún hafi gengist undir aðgerð.

Búið er að bera kennsl á konuna sem samkvæmt heimildum fréttastofu var ekki með skilríki á sér þegar slysið varð. Ásmundur Rúnar segir fullorðinn einstakling hafa ekið bílnum.

Ekki leikur grunur um að viðkomandi hafi verið undir áhrifum eða haft síma við höndina undir stýri. Þá var ekkert athugavert við aðstæður á vettvangi um tíuleytið, þ.e. hvað varðar birtuskilyrði, hálku eða annað slíkt.

Ásmundur Rúnar segir myndina vera að skýrast. Vitni hafi gefið sig fram við lögreglu sem til standi að taka skýrslu af. Þá sé lögregla að afla sér myndefnis af ákeyrslunni en einhverjar myndavélar munu hafa fest það á filmu.


Tengdar fréttir

Ekki búið að bera kennsl á þann sem ekið var á

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur að rannsókn alvarlegs umferðarslyss á Suðurlandsbraut í morgun þar sem ekið var á einstakling á göngu við gönguljós. Lögregla leitar að vitnum að atvikinu.

Alvarlegt slys á Suðurlandsbraut

Alvarlegt slys varð við gönguljós á Suðurlandsbraut vestan við Reykjaveg um klukkan 10 í morgun þegar ekið var á gangandi vegfaranda. Tveir sjúkrabílar voru sendir á svæðið samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði og var einn fluttur á slysadeild. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×