Innlent

Kvennamál ekki upphaf Baugsmálsins segir Jón Gerald

Jón Gerald Sullenberger í dómssal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun ásamt lögmanni sínum, Brynjari Níelssyni.
Jón Gerald Sullenberger í dómssal í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun ásamt lögmanni sínum, Brynjari Níelssyni. MYND/Stöð 2

Jón Gerald Sullenberger mætti í morgun til yfirheyrslu í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna meints þáttar hans í Baugsmálinu. Honum er gefið að sök að hafa aðstoðað Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóra Baugs og Tryggva Jónsson, fyrrverandi aðstoðarforstjóra fyrirtækisins, að rangfæra bókhald Baugs með því að útbúa tilhæfulausan kreditreikning upp á tæpar 62 milljónir um skuld félags hans, Nordica, við Baug.

Jón Gerald sagði í samtali við fréttamann Vísis að það væri rangt að Baugsmálið ætti rætur sínar að rekja til kvennamála eins og Jón Ásgeir og Tryggvi hefðu haldið fram fyrir dómi. Rætur þess lægju annars staðar eins og hann myndi koma inn í skýrslutöku í dag. Hann og Baugsmenn væru þó orðnir sammála um eitt, að Baugsmálið ætti sér ekki pólitískar rætur.

Þá hafnar Jón Gerald því að hann hafi tekið þátt í meintu bókhaldsbroti og segir að það muni sannast í réttarhöldunum.

Skýrsla verður tekin af Jóni Gerald í dag og á morgun en hlé verður gert á skýrslutökunni um tíma í dag þegar lokið verður við að yfirheyra Jón Ásgeir Jóhannesson vegna meints fjárdrátts frá Baugi í tengslum við skemmtibátinn Thee Viking sem getið er í 18. ákærulið. Eins og greint var frá í síðustu viku stöðvaði dómari Sigurð Tómas Magnússon, settan saksóknara í málinu, þegar hann hafði ekki lokið við að spyrja Jón Ásgeir út í ákæruliðinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×