Innlent

Kauprétti ekki leynt

Óskar Magnússon (til vinstri) ræddi við Sigurð Tómas Magnússon áður en hann bar vitni í Baugsmálinu.
Óskar Magnússon (til vinstri) ræddi við Sigurð Tómas Magnússon áður en hann bar vitni í Baugsmálinu. MYND/Brjánn

Engin leynd var um kauprétt þriggja æðstu stjórnenda Baugs, sem samið var um við stofnun félagsins árið 1998, sagði Óskar Magnússon, fyrrverandi stjórnarformaður félagsins, þegar hann bar vitni í Baugsmálinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á fimmtudag.

Óskar sagði að kveðið hafi verið á um kaupréttinn í stofnsáttmála. Auk þess hafi verið skýr ákvæði um hann í ráðningarsamningi hans, Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, og Tryggva Jónssonar, þáverandi aðstoðarforstjóra. Stofnendur félagsins hafi skrifað undir ráðningarsamningana þar sem félagið hafi á þeim tíma ekki verið formlega stofnað.

Forsvarsmenn Baugs töldu kaupréttarsamningana sér til tekna þegar þeir kynntu fyrirtækið sem fjárfestingarkost, sagði Óskar. Það hafi verið talið jákvætt að stjórnendur hefðu svo mikla trú á félaginu að þeir hefðu að hluta til bundið tekjur sínar góðum árangri félagsins, og það kynnt fyrir 10-30 mögulegum fjárfestum.

Spurður hvort stjórn Baugs hafi vitað af kaupréttarákvæðunum, og því að þau voru að hluta til uppfyllt árið 1999, sagði Óskar að svo hafi verið. Meðal annars hafi verið fjallað um þennan nýtta kauprétt í starfslokasamningi hans, undir lok árs 1999. Samningurinn hafi verið borinn undir stjórn og hún skrifað undir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×