Innlent

Spurt ítarlega um kauprétt stjórnenda

Ytri endurskoðendur Baugs vissu ekki af kaupréttarsamningum sem gerðir voru við þrjá æðstu stjórnendur félagsins við stofnun þess 1998, og fullnustaðir voru að hluta árið 1999, fyrr en árið 2002 eða síðar.

Þetta kom fram í spurningum setts ríkissaksóknara til Tryggva Jónssonar, eins ákærða í málinu, í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Aðalmeðferð í Baugsmálinu hélt áfram í réttarsal í gær, þegar Tryggvi, sem var aðstoðarforstjóri og síðar forstjóri Baugs, hélt áfram skýrslugjöf þar sem frá var horfið fyrir helgi.

Sigurður Tómas Magnússon, settur ríkissaksóknari, vitnaði þar í tvo endurskoðendur sem unnu fyrir Baug, sem sögðu báðir við yfirheyrslur hjá lögreglu að þeim hafi verið ókunnugt um kaupréttarsamninga sem gerðir voru við forstjóra, aðstoðarforstjóra og stjórnarformann Baugs.

Kaupréttarsamningarnir koma við sögu þar sem í einum ákæruliðanna sem fjallað var um í gær eru þeir Tryggvi og Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs Group, ákærðir fyrir meiri háttar bókhaldsbrot með því að færa sölu á hlutabréfum í félaginu á reikning hjá Kaupþingi Lúxemborg, en bréfin voru meðal annars notuð til að uppfylla kaupréttarsamninga við æðstu stjórnendur Baugs.

Tryggvi sagðist í gær ekki hafa vitað hversu háar upphæðir hafi verið að ræða í samningum við stjórnarformann og forstjóra, en sagði að sér hafi verið kunnugt um samningana, enda sjálfur með slíkan samning. Samningarnir hafi verið með þeim fyrstu sinnar tegundar hér á landi á þessum tíma.

Spurður hvort stjórn félagsins hafi vitað af kaupréttarsamningunum sagðist hann telja fullvíst að stjórnarmenn hafi vitað af þeim. Endurskoðendur hafi einnig getað fengið upplýsingar um þá með því að leita eftir þeim. Kaupréttarsamningarnir voru fullnustaðir að hluta árið 1999, og Tryggvi sagðist ekki hafa greitt skatt af hagnaðinum fyrr en hann færði féð hingað til lands árið 2002. Samtals fengu stjórnendurnir hlutabréf vegna þessara samninga sem þeir seldu fyrir 72,5 milljónir króna árið 1999.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×