Erlent

Írar drykkfelldastir ESB-þjóða

MYND/Vilhelm

Írar eru drykkfelldastir Evrópusambandsþjóða ef marka má niðurstöður nýrrar könnunar sem gerð var á drykkjuvenjum innan sambandsins. Rúmlega þriðjungur Íra drekkur áfengi í óhófi þegar hann fær sér í glas en með óhófi er miðað við fimm drykki eða meira í hvert skipti sem menn blóta Bakkusi. Þar á eftir koma Finnar, Bretar og Danir.

Könnunin leiðir í ljós að tíundi hver íbúi í ríkjum Evrópusambandsins drekkur áfengi í óhófi og staðan er sérstaklega slæm hjá ungu fólki, en nærri fimmtungur ungmenna á aldrinum 15-24 drekkur fimm drykki eða meira þegar hann fær sér í glas.

Þá sýna tölur ESB að nærri 200 þúsund manns látast af völdum of mikillar áfengisneyslu í sambandinu ár hvert og má rekja dauða eins af hverjum fjórum körlum á aldrinum 15-29 ára til skaðlegrar áfengisneyslu eins og það er kallað.

Yfirmaður heilbrigðismála hjá ESB segist hafa miklar áhyggjur af þessum niðurstöðum og er ætlunin að ræða það innan sambandsins hvað megi gera til þess að draga úr skaðlegri áfengisneyslu innan ESB.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×