Erlent

Tillaga um endurnýjun kjarnorkukafbátaflota samþykkt

Þingmenn í neðri deild breska þingsins samþykktu í kvöld með yfirgnæfandi meirihluta tillögur Tonys Blairs, forsætisráðherra Bretlands, um að endurnýja kjarnorkuvopnabúr Bretlands.

409 þingmenn voru fylgjandi tillögunni en 161 á móti en tillagan gerir ráð fyrir að 15-20 milljörðum punda verði varið til að endurnýja Trident-kjarnorkukafbátaflota Bretlands sem þjóna eiga landinu til ársins 2024.

Töluverð andstaða var við tillögurnar innan Verkamannaflokksins en búist hafði verið við að tillögur Blairs yrðu samþykktar þar sem íhaldsmenn voru fylgjandi þeim. Rætt var um tillögurnar í sex klukkustundir á breska þinginu í dag en fyrir utan þinghúsið mótmæltu fjölmargir áformunum.

Tony Blair sagði við umræðurnar á þingi að mikilvægt væri að byrja að endurnýja kjarnorkukafbátaflotann nú. „Það er nauðsynlegt fyrir öryggi okkar í óörggum heimi," sagði Blair. Fjölmargir flokksbræður hans voru honum ósammála og sögðu tveir aðstoðarmenn ráðherra af sér vegna andstöðu við tillögurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×