Erlent

Mótmælin hafa verið friðsamleg í dag

Mótmæli í Kaupmannahöfn hafa gengið friðsamlega fyrir sig í dag. Um 2000 mótmælendur gengu fylktu liði frá Ráðhústorgi upp á Norðurbrú og sungu stuðningssöngva við Ungdomshuset.

Mótmælendur kenna lögreglunni um það mikla ofbeldi sem hefur verið í borginni undanfarna tvo daga og segja að þar sem lögregla hafi beitt miklu valdi hafi það kallað á ofbeldi mótmælendanna. Fyrirhugaðir tónleikar sem áttu að vera í Ungdomshuset í kvöld hafa verið fluttir í Nørrebroparken sem er í nágrenni hússins.

Line Barfod þingmaður Enhedslisten í Danmörku, sem er flokkurinn lengst til vinstri, hélt ræðu á mótmælafundi fyrr í dag þar sem hún lýsti yfir stuðningi sínum við málstað mótmælendanna.

Lögregla er enn með mikinn viðbúnað og sem fyrr er óttast að upp úr sjóði þegar líður á daginn. Lögregla hefur látið lausa nær 200 mótmælendur sem voru handteknir í gærkvöld og fyrrakvöld og ætlar að það geti verið olía á eldinn síðar í dag.


Tengdar fréttir

Mótmæli hafin á ný

Mótmæli eru hafin á ný eftir rólegan morgunn í Kaupmannahöfn. Fólk hefur hópast saman bæði á Vesturbrú og í Kristjánshöfn. Hóparnir stefna báðir niður á Ráðhústorg. Lögregla áætlar að um 1000 manns séu nú að mótmæla. Mótmælin hafa verið friðsamleg til þessa í dag en lögregla hefur handtekið nær 500 manns síðustu tvo daga vegna mótmælanna.

Lögreglan ræðst gegn óeirðaseggjum

Danska lögreglan hefur farið hús úr húsi í Kaupmannahöfn í morgun og handtekið grunaða óeirðaseggi. Vel á annað hundrað mótmælendur voru handteknir í óeirðum á Norðurbrú og í Kristjánshöfn í nótt. Til átaka kom þar aðra nóttina í röð. Mótmælendur boða aðgerðir víða í Kaupmannahöfn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×