Erlent

Lögreglan ræðst gegn óeirðaseggjum

Danska lögreglan hefur farið hús úr húsi í Kaupmannahöfn í morgun og handtekið grunaða óeirðaseggi. Vel á annað hundrað mótmælendur voru handteknir í óeirðum á Norðurbrú og í Kristjánshöfn í nótt. Til átaka kom þar aðra nóttina í röð. Mótmælendur boða aðgerðir víða í Kaupmannahöfn í dag.

Það var snemma á fimmtudaginn sem lögregla rýmdi æskulýðsmiðstöðina með valdi. Húsið var selt fyrir fimm árum og fyrir hálfu ári var hústökufólki gert að fara þaðan. Ungmennin gerðu það ekki og því var gripið til aðgerða. Annað hús stóð þeim til boða fyrir mótmælin en það tilboð hefur nú verið tekið af borðinu.

Mótmælin hófust með friðsamlegum hætti á Sánkti Hans torgi í gærkvöldi þegar vel á annað þúsund manns komu saman. Friðsamlegur mótmælafundur snerist upp í óeirðir skömmu eftir miðnætti. Lögregla notaði táragas til að dreifa mannfjöldanum. Mótmælendur svöruðu með eldsprengjum og grjóthnullungum. Kveikt var í nærri tuttugu bílum, þar á meðal einum lögreglubíl.

Óeirðarseggir létu einnig til skarar skríða í Kristjánshöfn nærri Kristjaníu í nótt. Þeir réðust inn í framhaldsskóla þar og brutu allt þar inni og brömluðu. Tölvurnar flugu út um glugga skólans í látunum.

Lögregla segir aðgerðir liðinnar nætur hafa virst betur skipulagðar en mótmælin í fyrrinótt. Vel á annað hundrað mótmælendur voru handteknir í nótt og í morgun fór lögregla hús úr húsi og handtók grunaða óeirðaseggi. Að sögn danskra miðla hafa á fimmta hundrað mótmælendur verið handteknir síðan á fimmtudaginn.

Aðgerðir hafa verið boðaðar víða um Kaupmannahöfn í dag. Á vefsíðu Ungdómshússins má finna leiðbeiningar um það hvernig skulu mótmæla eftir að húsið er rýmt. Á þriðja degi, það er að segja í dag, er gert ráð fyrir svokölluðum aðgerðardegi. Mótmælendur eru hvattir til að nota ímyndunaraflið. Hægt sé að stöðva umferð með margvíslegum hætti, leggja undir sig byggingar og annað sem vekji athygli á málstað þeirra.

Mynd/Teitur
Mynd/Teitur
Mynd/Hari
Mynd/Teitur
Mynd/Hari
Mynd/Hari
Mynd/Hari



Fleiri fréttir

Sjá meira


×