Lestarstjórar í Þrándheimi, í Noregi, horfa nokkuð áhyggjufullir til sumarsins sem brátt fer í hönd. Þá þurfa þeir að takast á við nýja hættu í starfi sínu. Nýjasta sportið hjá ungum spennufíklum í Norður-Noregi er nefnilega að stunda ástaleiki á járnbrautarteinum. Vandamálið er orðið það alvarlegt að þegar lestarstjórar í Þrándheimi mæta á vakt um helgar, fá þeir aðvörun, ef vitað er til þess að verið sé að halda partí í almenningsgarðinum í Verdal.
Ennþá hefur ekki orðið slys af þessum sökum, en nokkrum sinnum hefur hurð skollið nærri hælum. Það sem lestarstjórarnir eru hræddastir við er að koma að fólkinu á örlagastundu, þegar það hefur um allt annað að hugsa en hvort nokkur þúsund tonna járnbrautarlest sé að nálgast. "Þetta er eiginlega spurning um hver kemur fyrst," segir talsmaður norsku járnbrautanna.