Erlent

Réttað yfir meintum ræningjum Ópsins og Madonnu

Ópið eftir Edvard Munch.
Ópið eftir Edvard Munch.

Réttarhöld hefjast í Noregi í dag yfir fimm mönnum sem ákærðir eru fyrir að hafa rænt málverkunum Ópinu og Madonnu eftir Edvard Munch af Munch-safninu í Osló í ágúst árið 2004.

Málið er tekið fyrir á millidómstigi nú en í fyrra voru þrír sakfelldir og þrír sýknaðir vegna aðildar sínar að ránunum á lægsta dómstigi í Noregi. Fallið hefur verið frá ákærum á hendur einum manni í millitíðinni.

Harðar deilur hafa staðið á milli verjenda mannanna og saksóknara en þeir fyrrnefndu fara fram á aðgang að leyniskjölum lögreglunnar um málið þar sem meðal annars kemur fram hvernig lögregla komst aftur yfir málverkin í ágúst í fyrra.

Saksóknari ber því hins vegar við að ekki megi láta skjölin af hendi vegna öryggis heimildarmanna lögreglunnar. Hefur því komið til kasta Hæstaréttar í þessum hluta málsins en hugsanlega kveður hann upp úrskurð sinn um leyniskjölin í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×