Erlent

Eldur í japönsku hvalveiðiskipi

AP

Eldur braust út í gær í flaggskipi japanska hvalveiðiflotans, sem verið hefur á veiðum í Suður-Íshafi. Nýsjálensk yfirvöld hafa áhyggjur af því að olía um borð í skipinu geti valdið umhverfisslysi.

Ekki er vitað hvernig eldurinn kom upp en sagt er útilokað að um skemmdarverk hvalfriðunarsinna sé að ræða. Aðstæður voru allar hinar bestu til sjósóknar þegar eldurinn kom upp, logn og sléttur sjór. 140 skipverjum var bjargað um borð í annað japanskt hvalveiðiskip en 20 urðu eftir um borð til að berjast við eldinn.

Nýsjálendingar hafa áhyggjur af því að eldurinn geti valdið umhverfisslysi ef olía eða önnur eiturefni fara að leka úr skipinu sem er nokkurra daga siglingu frá næstu höfn. Hafsvæðið þar sem skipið er núna er eitt óspjallaðasta hafsvæði veraldar og heimkynni mörgæsa og sela. Ríkisstjórn Nýja Sjálands hefur gefið út að skipið megi leggjast að bryggju þar í landi en undir venjulegum kringumstæðum er ekki vel séð að hvalveiðiskip komi þangað.

Skipverjar á skipi Greenpeace sem hefur ætlað að trufla veiðar buðu fram aðstoð sína en hún var afþökkuð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×