Erlent

Hörð átök um hvalveiðar

AP

Sea Shepherd-liðar sigldu í gær á japanskt hvalveiðiskip og sköðuðu það svo illa að það þurfti að halda til hafnar. Stjórnvöld í Japan segja Sea Shepherd stunda hryðjuverk.

Átök hafa magnast undanfarna daga á milli Sea Shepherd og japanska hvalveiðiflotans í Suður-Íshafi. Fyrir helgi helltu Sea Shepherd-liðar sýru á japanskt hvalveiðiskip og í gær sigldu þeir á annað. Gat kom á bæði hvalveiðiskipið og skip Sea Shepherd, hvalveiðiskipið skemmdist þá svo mikið að það þurfti að halda til hafnar.

Paul Watson

Sea Shepherd ætla ekki að láta þar við sitja og hóta frekari ásiglingum, þeir ætli að stöðva hvalveiðar Japana sem ætla í ár að veiða 350 hrefnur í vísindaskyni. Skipstjóri annars tveggja skipa Sea Shepherd er Paul Watson en hann er Íslendingum að góðu kunnur fyrir að hafa sökkt hvalbátum í Reykjavíkurhöfn árið 1986.

Þá hefst í dag ráðstefna í Japan sem á að höggva á hnútinn í Alþjóða hvalveiðiráðinu en á ráðstefnunni á að ræða þá kreppu sem ríkir í starfi ráðsins en eins og sakir standa geta hvorki hvalveiðisinnar né verndunarsinnar komið málum sínum þar í gegn þar sem þrjá fjórðu hluta atkvæða þarf til að gera meiriháttar breytingar á samþykktum ráðsins.

Ríki sem eru andsnúin hvalveiðum sniðganga ráðstefnuna og því virðist sem ráðið sé klofið. Stefán Ásmundsson er fulltrúi Íslendinga á fundinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×