Erlent

Reyna enn að ná saman um afvopnun

Christopher Hill og bandaríska samninganefndin
Christopher Hill og bandaríska samninganefndin AP

Reynt verður áfram að ná samkomulagi í sex ríkja viðræðum um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Í morgun var ákveðið að halda áfram, þó viðræðunum hafi átt að ljúka í gær. Viðræðurnar fóru vel af stað þegar þær hófust á fimmtudag en strönduðu á kröfum Norður-Kóreumanna um orkuaðstoð gegn kjarnorkuafvopnun.

Christopher Hill aðalsamningamaður Bandaríkjanna sagði að dagurinn í dag yrði þó áreiðanlega sá síðasti í viðræðulotunni og hvatti Norður-Kóreumenn til að ganga að þeim samningum sem liggja á borðinu. Sendinefndir Bandaríkjanna og Norður-Kóreu hafa einnig hist án hinna þjóðanna í þeirri von að ná saman.

Viðsemjendur Norður-Kóreumanna virðast sammála um að kröfur þeirra séu óhóflegar og ekki sé hægt að verða við þeim. Þjóðirnar sem eiga aðild að sex ríkja viðræðunum eru Norður-Kórea, Suður-Kórea, Kína, Japan, Rússland og Bandaríkin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×