Erlent

Kjarnorkuviðræður sigla í strand

Christopher Hill og bandaríska samninganefndin
Christopher Hill og bandaríska samninganefndin AP

Endanlega virðist ætla að sigla í strand í viðræðum um kjarnorkumál Norður-Kóreu. Samningamenn segja kröfur Norður-Kóreu um aðstoð í orkumálum óhóflegar en sex ríkja viðræðum lauk í Peking í gær.

Christopher Hill aðalsamningamaður Bandaríkjamanna í sex ríkja viðræðum um kjarnorkumál Norður-Kóreu hvetur stjórnvöld í Pyongyang til að ganga að þeim samningstilboðum sem nú eru á borðinu.

Vel gekk fyrstu daga viðræðnanna sem hófust á fimmtudag en viðræðurnar hafa svo strandað á kröfum Norður-Kóreumanna um rándýra aðstoð í orkumálum sem þeir krefjast af Bandaríkjamönnum gegn því að þeir eyði kjarnavopnum sínum.

Stjórnmálaskýrendur velta nú fyrir sér hvort nokkuð stoði að halda viðræðum áfram yfir höfuð ef ekki tekst að semja í þetta skiptið en þetta er í sjötta skipti á þremur árum sem sexríkin reyna að ná saman án verulegs árangurs. Enn virðist vera stál í stál og ekkert útlit fyrir að annar hvor aðilinn láti undan sínum kröfum.

Viðsemjendur Norður-Kóreumanna, Rússar, Suður-Kóreumenn, Japanir, Kínverjar og Bandaríkjamenn virðast sammála um að kröfur Norður-Kóreu séu óhóflegar og ekki sé hægt að verða við þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×