Fótbolti

Hannes lætur þjálfara sinn heyra það

Íslenski landsliðsmaðurinn Hannes Sigurðsson lætur nýjan þjálfara sinn Tom Kolhert fá það óþvegið í viðtali við danska Expressen í morgun. Sem kunnugt er hefur Kolhert tilkynnt Hannesi að hann muni ekki spila undir sinni stjórn og sagt honum að leita sér að nýju liði. Hannes sakar Kolhert um algjör virðingarleysi.

Leikmannagluggar í Evrópu eru flestir lokaðir frá því um síðustu mánaðamót. Möguleikar hans á nýju félagi eru því takmarkaðir við Norðurlöndin, og er ekki talið ólíklegt að gangi til liðs við sitt gamla lið Viking í Noregi. Hannes er hins vegar allt annað en sáttur við framkomu Køhlert.

"Svona kemur maður ekkert fram við leikmenn sína. Það er ekki mikið sem hægt er að gera í svona stöðu. Ég er með fjölskyldu og það er að mörgu að huga þegar það þarf að skipta um félag. Það er glórulaust að hann skuli segja mér að finna nýtt lið aðeins fáeinum dögum áður en það lokast fyrir leikmannagluggann," segir Hannes.

Þjálfarinn Køhlert segist hafa hreina samvisku og að hann hafi höndlað málið eins og best var á kosið. "Ég tók við 5. janúar og þurfti minn tíma til að meta leikmannahópinn. Eftir 14 daga tilkynnti ég Hannesi ákvörðun mína. Það tel ég vera skjótan tíma," segir Køhlert.

Þessa afsökun kaupir Hannes hins vegar ekki. "Ég er viss um að hann var búinn að ákveða þetta fyrir löngu síðan. Þetta er fullkomið virðingar- og tillitsleysi hjá honum," sagði Hannes að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×