Enski boltinn

Joey Barton fékk þurrar móttökur á fyrstu æfingu

Joey Barton fékk ekkert knús á fyrstu æfingu sinni með enska landsliðinu
Joey Barton fékk ekkert knús á fyrstu æfingu sinni með enska landsliðinu NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Joey Barton fékk fremur þurrar móttökur þegar hann mætti á sína fyrstu landsliðsæfingu á dögunum ef marka má grein í breska blaðinu Sun í dag. Barton gagnrýndi þá Frank Lampard og Steven Gerrard harðlega fyrir frammistöðu sína á HM í sumar og fékk því ekki sérstaklega hlýjar móttökur frá þeim félögum.

Heimildir herma að Barton hafi verið nokkuð sér á báti þegar hann mætti á fyrstu æfingu sína hjá enska landsliðinu en hann fann þar fljótlega félaga sína Micah Richards og Shaun Wright-Phillips. Ísinn bráðnaði þó fljótlega og Barton var farinn að ræða við þá Gerrard og Lampard fljótlega.

Gerrard ber fyrirliðabandið í leiknum gegn Spánverjum annað kvöld og þó hann viðurkenni að Barton hafi farið yfir strikið í ummælum sínum um enska landsliðið í sumar, segir hann að það komi ekki til með að skemma fyrir samstarfi þeirra hjá landsliðinu.

"Steve McClaren er að reyna að hrista upp í liðinu og ég held að Joey Barton sé einmitt leikmaður til þess. Ég, Frank og Joey munum eflaust ræða saman í góðu tómi fljótlega og fara yfir þessa hluti og ég er viss um að við munum gleyma þessu strax. Ég þekki Joey vel því við erum úr sama hverfi og ég glotti nú bara með sjálfum mér þegar ég sá að hann var valinn í landsliðið," sagði Gerrard og vísaði til ummæla Barton í sumar þegar hann sagði að Gerrard og Lampard gætu ekki spilað saman í enska landsliðinu, hefðu verið lélegir á HM og síðan vælt yfir því í bókum sínum sem þeir gáfu út eftir HM.

"Joey er svipaður og ég þegar hann veitir viðtöl, því hann segir það sem hann er að hugsa. Hann er hreinskilinn maður, en við segjum stundum hluti sem við sjáum eftir síðar. Hann á eftir að læra af þessu," sagði fyrirliðinn, sem fyrr um daginn grínaðist með það að hann væri að spá í að gefa Barton eintak af bókinni sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×