Líklegt er talið að breska lögreglan krefjist þess að Rússar framselji Andrei Lúgóvoj, fyrrverandi njósnara KGB, vegna morðsins á starfsbróður sínum, Alexander Litvinenko. Eitrað var fyrir honum með geislavirku efni. Breska dagblaðið Guardian fullyrti þetta í gær.
Ólíklegt er talið að Rússar framselji Lúgóvoj en hann segir ekkert hæft í fréttum blaðsins. Athygli bresku lögreglunnar hefur beinst að Lúgóvoj eftir að uppvíst varð að hann hitti Litvinenko á hóteli í Lundúnum daginn sem talið er að honum hafi verið byrlað eitur.