Enski boltinn

Benitez bað stuðningsmenn afsökunar

Rafa Benitez hafði fá svör við tapinu stóra gegn Arsenal
Rafa Benitez hafði fá svör við tapinu stóra gegn Arsenal NordicPhotos/GettyImages

Rafa Benitez bað stuðningsmenn Liverpool afsökunar á frammistöðu liðsins gegn Arsenal í deildarbikarnum eftir 6-3 tapið á Anfield. Þetta var annað stóra tapið í röð hjá Liverpool gegn Arsenal á heimavelli á nokkrum dögum.

"Ég get ekki annað en beðið stuðningsmenn afsökunar á þessum úrslitum og það er ljóst að við vorum langt frá því að spila nógu vel. Það þýðir samt ekkert að fetta fingri út í einstaka leikmenn, því við töpum sem lið rétt eins og við vinnum sem lið. Nú verðum við bara að einbeita okkur að næsta deildarleik og svo Meistaradeildinni," sagði Benitez.

Kollegi hans hjá Arsenal var að vonum kátari með frammistöðu sinna manna, sem skoruðu 9 mörk á þremur dögum á Anfield - sem hingað til hefur ekki verið talinn auðveldasti völlurinn til að skora mörk.

"Ég er yfir mig ánægður með ungu mennina sem sýndu svo ekki verður um villst að framtíð Arsenal er björt. Við viljum ekki eyða miklum peningum til leikmannakaupa og eigum ekkert að þurfa að gera það - því ég hef alltaf sagt að efniviðurinn hjá okkur er frábær," sagði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×