Erlent

Kenía lokar landamærunum

Kenía hefur lokað landamærum sínum að Sómalíu og sent hersveitir til að stöðva stríðan straum sómalskra flóttamanna inn í landið. Helsta ástæðan fyrir lokuninni er ótti kenískra stjórnvalda við að íslamskir uppreisnarmenn flýi yfir til Kenía. 420 flóttamenn, flest konur og börn, hafa verið sendir til baka frá landamærunum.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna UNHCR, segir frá því að í Dhobley-héraðinu, Sómalíu-megin við landamærin séu nú um 4.000 vegalausir flóttamenn sem hafi ætlað að reyna að komast yfir til Kenía.

Stjórnarher Sómalíu, með fulltingi eþíópískra hermanna, rak uppreisnarmenn íslamista frá þeim stöðum í Sómalíu þar sem þeir höfðu hreiðrað um sig í tveggja vikna herferð. Flóttinn var hrakinn í áttina að kenísku landamærunum og óttast ráðamenn í Kenía nú að uppreisnarmennirnir hreiðri um sig Kenía-megin landamæranna og herji þaðan með skærum á stjórnina í Sómalíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×