Erlent

Maliki vill ekki sitja annað kjörtímabil

Nuri al-Maliki segist hafa þegið embætti forsætisráðherra til að vinna þjóð sinni í haginn.
Nuri al-Maliki segist hafa þegið embætti forsætisráðherra til að vinna þjóð sinni í haginn. MYND/AP

Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, hefur ekki áhuga á að sitja annað kjörtímabil og óskar þess jafnvel að þurfa ekki að sitja út núverandi kjörtímabil. Hann segist einungis hafa tekið að sér embættið því hann hafi talið að það þjónaði hagsmunum þjóðarinnar.

Þetta segir hann í viðtali við blaðið Wall Street Journal, sem birtist í dag. Þar svarar hann spurningu um hvort hann myndi þiggja embættið í eitt kjörtímabil í viðbót með einu orði: "útilokað"!

"Ég vildi að þessu myndi ljúka jafnvel áður en þessu kjörtímabili lýkur. Ég myndi vilja þjóna fólkinu mínu án þess að tilheyra æðstu embættismönnum, kannski á þinginu eða með því að vinna beint með fólkinu," segir Maliki í viðtalinu.

Maliki gagnrýnir einnig erlendan herafla landsins undir stjórn Bandaríkjamanna og íraska herinn fyrir að bregðast of seint og of hægt við ofbeldi í landinu.

Viðtalið við hann var tekið þann 24. desember, þegar Bush hafði þegar lýst yfir áhuga sínum á að auka herafla Bandaríkjamanna í Írak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×