Erlent

Stórhuga Ban Ki-moon

Ban Ki-moon tók við embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um áramótin.
Ban Ki-moon tók við embætti framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um áramótin. MYND/AP

Ban Ki-moon, nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, ætlar að  byggja upp traust á samtökin. Hann ætlar einnig að beina sérstakri athygli að krefjandi verkefnum í Miðausturlöndum og Darfur auk þess sem hann ætlar að efna þúsaldarmarkmið S.þ. um að helminga fátækt fyrir árið 2015.

Þetta sagði hann þegar hann mætti til nýju vinnunnar sinnar í New York í fyrsta skipti í dag. Þá endurnýjaði hann loforð sitt um að veita málefnum Norður-Kóreu sérstaka athygli, en Ban var áður utanríkisráðherra grannríkisins Suður-Kóreu.

Þegar hann var spurður álits á hengingu Saddams Husseins, sagði hann að fórnarlömb glæpa hans mættu ekki gleymast en lagði áherslu á að lög og regla yrðu að hafa sinn framgang.

Fyrsta opinbera heimsókn Bans verður til Addis Ababa í Eþíópíu, þar sem Afríkusambandið heldur leiðtogafund sinn síðustu helgina í janúar. Þar vonast hann til að ræða við Omar al-Bashir, forseta Súdans, um átökin í Darfur. Ban ætlar að ráðfæra sig við sendierindreka S.þ. í Darfur á miðvikudag og veita þessu máli sérstaka athygli, í von um að ná að leysa átökin á friðsælan hátt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×