Erlent

Minningarathöfn um Gerald Ford í Washington í dag

Forsetahjónin George og Laura Bush votta Gerald Ford, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, virðingu sína í þinghúsinu í Washington í gær.
Forsetahjónin George og Laura Bush votta Gerald Ford, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, virðingu sína í þinghúsinu í Washington í gær. MYND/AP

Minningarathöfn verður í Washington í dag um Gerald Ford, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, en hann lést í síðustu viku, 93 ára að aldri. Kista forsetans hefur legið í sal í þinghúsinu í Washington frá því um helgina þar sem Bandaríkjamenn, þar á meðal George Bush Bandaríkjaforseti og kona hans Laura, hafa vottað honum virðingu sína.

Minningarathöfnin fer fram í Dómkirkjunni í Washington að viðstöddum þremur fyrrverandi forsetum Bandaríkjanna, þeim Bill Clinton, George Bush eldri og Jimmy Carter, og þá mun George Bush yngri, núverandi forseti Bandaríkjann, flytja minningarræðu við athöfnina. Eftir hana verður flogið með kistu Fords til æskustöðva hans í Grand Rapids í Michigan þar sem Ford verður grafinn á morgun.

Gerald Ford var forseti Bandaríkjanna í um tvö og hálft ár á áttunda áratug síðustu aldar en hann tók við af Richard Nixon sem sagði af sér í kjölfar Watergate-hneykslisins. Ford tapaði hins vegar í forsetakosningunum 1976 fyrir Jimmy Carter og telja stjórnmálaskýrendur að það megi líklegast rekja til þess að hann náðaði Nixon þannig að ekki var hægt að sækja hann til saka vegna Watergate-málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×