Erlent

Aðeins 17.206 myrtir á árinu

Kólumbíska lögreglan fagnar því um áramótin að morðmál í landinu hafa ekki verið færri í 20 ár. "Einungis" 17.206 létust fyrir hendi morðingja á árinu, eða rétt rúmlega 47 á dag. Mannránum fækkar einnig umtalsvert, úr 329 árið 2005 niður í 200 á síðasta ári. Kólumbía hefur einna hæsta morðtíðni í heimi en hlutirnir virðast vera að færast í rétta átt.

Ríkisstjórn forsetans Alvaros Uribes hefur barist gegn skæruliðahópum sem aðhyllast öfgastefnur bæði til hægri og vinstri. Einnig hefur verið tekið á ofbeldi tengdu eiturlyfjaiðnaðinum, sem er umfangsmikill í landinu.

Þrátt fyrir að ofbeldið fari minnkandi og morðum fækki um 517 á milli ára, þá segja lögregluyfirvöld í landinu að betur megi ef duga skuli. 45,6 milljónir búa í Suður-Ameríkulandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×