Erlent

Orðið hæsta hús í heimi

Ókláraður skýjakljúfur í Dúbai, Burj Dubai, er orðinn hæsta hús í heimi, fullyrða verkfræðingar sem koma að verkinu. Segja þeir turninn kominn yfir 512 metra, eða fjórum metrum hærri en hingað til hæsta hús í heimi, Taipei 101 turninn í Tævan. Stefnt er að því að hæð efstu hæðar Burj Dubai verði í um 693 metra hæð við verklok. Ef turnspíran er talin með gæti efsti hluti hennar gnæft yfir eina 800 metra. Þar með yrði Burj Dubai einnig hæsta mannvirki í heimi. Það hæsta hingað til er sjónvarpmastur í Bandaríkjunum, sem er 628 metra hátt.

Mælingar á hæð húsa eru nokkuð á reiki því deilt er um hvaða hluta bygginganna beri að flokka sem hús. Stundum er miðað við hæð efstu hæðar, stundum við hæð þaksins og stundum við hæsta hluta turnspírunnar, eða jafnvel loftnetsins. Hvað sem því líður er 141 hæð tilbúin í Burj Dubai og hefur engin önnur bygging fleiri hæðir.

Verið hófst í september 2004 og er áætlað að því ljúki á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×