Erlent

Útlit fyrir að verkfalli flugmanna Sterling verði aflýst

Verkfalli flugmanna danska lágfargjaldaflugfélagsins Sterling sem hefjast átti á morgun verður líklega aflýst eftir því sem forsvarsmenn Sterling segja.

Samningaviðræður um laun og vinnutíma stóðu í alla nótt og haft er eftir markaðsstjóra Sterling í dönskum miðlum að verið sé að lesa yfir samninga og ljúka formsatriðum. Samkomulag hafi náðst um stærstu atriðin og hann vænti þess að skrifað verði undir samning síðar í dag.

15 þúsund ferðalangar geta því andað léttar en útlit var fyrir að þeir kæmust ekki á áfangastað á morgun. Forsvarsmenn Sterling sögðu í gær að félagið stefndi í gjaldþrot ef verkfall flugmanna drægist á langinn.

Sterling er í eigu Northern Travel Holding sem er að fullu í eigu íslenskra aðila. Þar er Fons með 44 prósent, FL Group með 34 prósent og Sund með 22 prósent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×