Erlent

Útiloka stuðninssamning til að sigra Sarkozy

Segolene Royal.
Segolene Royal. MYND/AP

Bæði Segolene Royal, frambjóðandi sósíalista í frönsku forsetakosningunum, og Francois Bayrou, frambjóðandi miðjumanna, útiloka á þessum tímapunkti að gera einhvers konar samning sín á milli um gagnkvæman stuðning til að sigra Nicolas Sarkozy, forsetaframbjóðanda hægri manna.

Sarkozy hefur haft forystu í skoðanakönnunum frá upphafi árs en Royal og Bayrou koma þar á eftir. Því hafa menn viðrað þær hugmyndir að þau lýsi yfir stuðningi hvort við annað áður en það liggur fyrir hvort þeirra fer áfram í seinni umferð forsetakosninganna í Frakklandi. Fyrri umferðin fer fram um næstu helgi þar sem tólf manns eru í framboði en ólíklegt er talið að nokkur hljóti hreinan meirihluta atkvæða þannig að ekki þurfi að koma til annarrar umferðar þann 6. maí.

Sarkozy þykir nokkuð öruggur í seinni umferðina en tvísýnt er hvort það verður Royal eða Bayrou sem etur kappi við hann þar eða jafnvel hægriöfgamaðurinn Jean-Marie Le Pen sem komst óvænt í seinni umferðina í síðustu forsetakosningunum. Hins vegar vilja Royal og Bayrou ekki gera neinn stuðningssamning fyrr en úrslit fyrri umferðar kosninganna liggja fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×