Íslenski boltinn

Pétur Marteinsson: Gríðarlega erfið staða

"Við erum búnir að eiga afspyrnuslaka byrjun í deildinni. Við skorum ekki úr færunum okkar, fáum ekki nógu mörg færi og svo erum við að fá alltof ódýr mörk á okkur," sagði Pétur Hafliði Marteinsson hjá KR í samtali við Sýn eftir tap liðsins gegn Skagamönnum í kvöld.

"Ef ég vissi hvað væri að hjá okkur, værum við ekki í þessari stöðu. Þetta er einhver blanda af sjálfstraustsleysi og bara slæmum anda. Við erum að gera allt sem við getum til að snúa þessu við en það er ekki að ganga," sagði Pétur og var beðinn um að útskýra nánar hvað hann ætti við með slæmum anda.

"Við erum að hafa ágætlega gaman af þessu á æfingum og svona, en það er greinilega ekki réttur andi í þessu liði til að vinna fótboltaleiki. Við þurfum einhvern veginn að taka okkur saman í andlitinu því þetta er alveg gríðarlega slæm staða sem við erum komnir í," sagði Pétur í samtali við Guðjón Guðmundsson í blíðviðrinu á Skaganum í kvöld.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×